Menu

Minnkum matarsóun

Á heimsvísu er talið að um 1/3 af framleiddum mat til manneldis eyðileggist eða sé sóað, það er um 1,3 milljarður tonna. Á Norðurlöndunum er sóað um 3,5 milljónum tonna af mat árlega! Framleiðsla matar hefur oft talsverð neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna þá engum tilgangi ef maturinn er ekki nýttur og eykur verulega við magn úrgangs sem þarf að urða. Hér er einnig um sóun á fjármunum að ræða þar sem heimili og stóreldhús kaupa í rauninni oft of mikið af mat. Því fæst töluverður samfélagslegur, umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur af því að minnka matarsóun. 

10 góð húsráð til að draga úr matarsóun

1. Skipuleggðu innkaupin.
Gerðu mataráætlanir og innkaupalista með matinn í ískápnum og í skápunum í huga.
Ekki falla í magnafsláttargryfjuna, þú gætir verið að kaupa meira magn en þú nærð að klára áður en það skemmist.

2. Athugaðu dagsetningar. Lærðu muninn á „síðasti notkunardagur“ og „best fyrir“ dagsetningum.
„Síðasti notkunardagur“: Hentu matvörunni að deginum liðnum.
„Best fyrir“: Segir til um lágmarksgeymsluþol vara. Varan er hæf til neyslu ef hún lyktar og bragðast eðlilega. Mikil matarsóun á rætur sínar að rekja til misskilnings á þessari merkingu.
Treystu á skynfærin og notaðu nefið áður en þú hendir góðum mat.

3. Hafðu fjármálin í huga.
Mundu að mat sem er hent er í raun peningi kastað á glæ.
Taktu gæði fram yfir magn. Það er líklegra að þú klárir gæðavöruna.

4. Stilltu ísskápinn rétt
Geymslutími matvæla getur styst töluvert ef hitastig ísskáps er of hátt.

5. Geymdu matinn á réttan hátt
Merktu hvenær þú opnaðir vörur svo að hægt sé að átta sig á því hvað þær eru orðnar gamlar.

6. Skipuleggðu ísskápinn
Raðaðu elstu vörunum fremst til að nota það elsta fyrst.

7. Eldaðu rétt magn
Nýttu þér skammtareiknivél til að vita hversu mikið þú þarft að elda.

8. Notaðu afgangana
Borðaðu þá daginn eftir eða nýttu þá í nýja rétti.

9. Notaðu frystinn
Ýmis konar afganga má frysta og nota síðar, t.d. umframmat, ávexti, grænmeti, rjóma, og kryddjurtir.

10. Búðu til moltu
Á vef Umhverfisstofnunar er hægt að skoða leiðbeiningar um heimajarðgerð

Önnur ráð

  • Mjólk og jógúrt sem hafa verið vel kæld geymast oftast mun lengur en uppgefnar dagsetningar, því ber að treysta á skynfærin þegar svo á við.
  • Ef mygla myndast á mjúkum osti, eins og brie, camembert og jafnvel sýrðum rjóma, ber ekki að neyta hans. En ef mygla myndast á hörðum osti þá er í lagi að skera einfaldlega mygluna og svæðið í kringum í burtu. 
  • Ávexti og grænmeti á síðasta snúningi er auðveldlega hægt að frysta og nýta síðar. 
  • Sniðugt er að frysta brauð áður en það myglar eða harðnar, en einnig eru ýmsar leiðir til að nýta harðnað brauð, t.d. í ýmsa ofnrétti.
  • Ferskar kryddjurtir verða oft afgangs. Það er hins vegar einfalt að auka geymsluþol þeirra með því að annað hvort vefja þeim í vota eldhúsrúllu inni í ísskáp eða fyrsta þær.

Heimild: Saman gegn sóun