Menu

Steikingartími á lambakjöti

Þegar heil, stór lambakjötsstykki eins og lambalæri og hryggur eru matreidd er algengast að þau séu ofnsteikt þótt grillsteiking sé algeng á sumrin. Oftast er ofninn hitaður áður en kjötið er sett inn í hann en það er þó ekki algilt og ýmsir mæla nú með að stórar steikur séu fremur settar í kaldan ofn og hitaðar hægt. Ekki þarf að setja vatn í ofnskúffuna, hella vatni yfir steikina eða ausa steikarsoði yfir hana, því þá myndast gufa í ofninum og kjötið steikist í rökum hita (gufusteikist) í stað þess að þurrsteikjast. Betra er að dreypa á hana bráðnu smjöri, en það er þó óþarft ef um feitt kjöt er að ræða.

Steiking á nokkrum algengum lambakjötsstykkjum:

Lambalæri með beini, 2,2-3 kg

Lítið steikt 60°C

Lambalæri með beini, 2,2-3 kg

160°C 25-30 mín/500 g

Meðalsteikt 70°C

Lambalæri með beini, 2,2-3 kg

160°C 30-35 mín/500 g

Mikið steikt 75°C

Lambalæri, úrbeinað, rúlla, 1,8-2,5 kg

60°C 25-30 mín/500 g

Lítið steikt 60°C

Lambalæri, úrbeinað, rúlla, 1,8-2,5 kg

160°C 30-35 mín/500 g

Meðalsteikt 70°C

Lambalæri, úrbeinað, rúlla, 1,8-2,5 kg

160°C 35-40 mín/500 g

Mikið steikt 75°C

Bógur með beini, 1,5-2 kg

160°C 30-35 mín/500 g

Lítið steikt 60°C

Bógur með beini, 1,5-2 kg

160°C 40-45 mín/500 g

Meðalsteikt 70°C

Bógur með beini, 1,5-2 kg

160°C 45-50 mín/500 g

Mikið steikt 75°C

Lambakebab, 2½-3½ cm bitar

Grill, góður hiti 8-12 mín.

Meðalsteikt 70°C

Lambakótelettur, 2-3 cm þykkar

Grill, góður hiti 3-5 mín. hv.hl.

Lítið steikt 60°C

Lambalærissneiðar, 2-3 cm þykkar

Grill, góður hiti 3-5 mín. hv.hl.

Lítið steikt 60°C

Hvernig á að vita hvort kjötið er tilbúið?

· Kjöthitamælir er öruggasta aðferðin við stórar steikur. Ef verið er að steikja læri í ofni má stinga mælinum í það áður en það er sett í ofninn, þá sýnir hann alltaf hver kjarnhitinn er, eða það má nota mæli sem stungið er í kjötið þegar það gæti farið að verða tilbúið og lesa má af eftir örfáar sekúndur.

· Þrýstu á vöðvann, með fingrinum eða með töng, til að kanna hve mjúkur hann er og hve vel hann gefur eftir. Lítið steikt kjöt er mjúkt og gefur vel eftir. Meðalsteikt kjöt er eilítið stinnara og gefur minna eftir og gegnsteikt kjöt gefur lítið sem ekkert eftir. Þetta er eitthvað sem lærist smátt og smátt með reynslunni en er sérlega hentugt fyrir minni kjötstykki, t.d. á grillinu.

· Svo er hægt að stinga í kjötið, alveg inn í miðju, og athuga litinn á kjötsafanum sem rennur út. Ef hann er rauður eða rauðleitur er kjötið lítið steikt. Ef hann er svolítið bleikur er það meðalsteikt en ef hann er tær er það vel steikt. Ef enginn safi rennur út er kjötið líkleg orðið steikt og þurrt í gegn. Best er þó að stinga sem minnst í kjötið til að ekki tapist safi.

Munið að ef kjötið er látið hvíla eftir að steikingu lýkur, eins og æskilegast er , heldur kjarnhitinn áfram að hækka dálítið. Reikna má með að í stórri steik eins og lambalæri hækki hann um 4-10°C (oftast um 5°C) á 15-20 mínútum og þetta þarf að hafa í huga þegar verið er að meta hvort kjötið sé að verða steikt. Ef gleymist að reikna með þessu getur kjötið reynst meira steikt en til var ætlast, þegar farið er að skera það.

Hvernig á að nota kjöthitamæli?

Kjöthitamælar eða steikarmælar eru sérstakir hitamælar með löngum, oddhvössum teini, ætlaðir til að stinga í stór kjötstykki og mæla hitann inni í þeim. Þeir geta verið mjög gagnlegir við ofnsteikingu. Þó er misjafnt hvað þeir eru nákvæmir og ekki er heldur sama hvar þeim er stungið. Oddurinn má t.d. ekki vera í fitu eða rétt við bein, þá sýnir hann ekki réttan hita. Þeir sem hafa reynt að stinga tveimur kjötmælum í stórt kjötstykki á mismunandi stöðum hafa sjálfsagt rekið sig á að þeir sýna ekki endilega alveg sama hita. Mælirinn þarf ekki að vera í kjötinu allan tímann en þó er ekki að marka álesturinn um leið og honum er stungið í kjötið, hann þarf að hafa verið þar smástund.
Almennt má reikna með að lambakjöt sé tilbúið þegar mælirinn sýnir 55°C fyrir lítið steikt, 60-65°C fyrir meðalsteikt og 70-75°C fyrir gegnsteikt, og er þá miðað við að kjötið eigi eftir að hvíla nokkra stund eftir að það er tekið úr ofninum eða af grillinu og kjarnahitinn hækki um nokkrar gráður.

 Heimild: lambakjot.is