Menu
Focaccia samlokur með burrata

Focaccia samlokur með burrata

Heimagerðar focaccia samlokur með burrata osti & öllu uppáhalds álegginu mínu

Focaccia samlokur í allskonar útgáfum hafa farið eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum síðastliðin misseri. Það skal engan undra því þvílíkt lostæti sem slíkar samlokur eru. Persónulega finnst mér best að gera sem mest frá grunni í eldamennskunni og því lá auðvitað beinast við að gera brauðið alveg frá grunni. Það er mjög auðvelt að baka focaccia brauð og lítil vinna sem liggur þar að baki, eina sem þarf er í raun tími og því er ágætt að hafa smá fyrirvara á bakstrinum. Eftirleikurinn er síðan minna en ekkert mál!

Það er hægt að nota í raun hvaða álegg sem er á milli en ég vel yfirleitt það sama. Þá smyr ég brauðið með grænu pestói, raða svo í einhverri röð hráskinku, tómötum, klettasalati og toppurinn er svo auðvitað burrata osturinn sem verður alltaf að vera með!

Innihald

1 skammtar

Focaccia brauð með rósmarín & Feyki

vatn, hitað í 37°C
hunang
þurrger
hveiti
himalaya salt
kaldpressuð ólífuolía
Feykir ostur, rifinn
ferskt rósmarín
sjávarsalt

Tillögur að áleggi

grænt pestó
mozzarellakúlur
íslenskur burrata ostur
tómatsneiðar
hráskinka
þurrkað salami með trufflum
klettasalat
ólífuolía
sjávarsalt
Feykir ostur, rifinn
fersk basilíka

Skref1

  • Velgið vatnið og hellið því í stóra skál. Ég set skálina á vigt og vigta vatnið í stað þess að nota mælikönnu, svona er þetta nákvæmara.
  • Setjið hunang út í vatnið og hrærið í með písk.
  • Bætið þurrgerinu út í og bíðið í örfáar mínútur.

Skref2

  • Setjið þá hveitið og saltið saman við og hrærið með sleif.
  • Þegar deigið er orðið nokkurn veginn samlagað, bætið þá olíunni saman við og haldið áfram að hræra í með sleifinni. Deigið er mjög blautt en hafið engar áhyggjur, þannig á það að vera.
  • Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að standa í 30 mín.

Skref3

  • Takið þá sleikju og skafið kantana upp með sleikjunni og brjótið deigið yfir sjálft sig. Á ensku er talað um „fold“ en það er aðferð sem mikið er notuð í súrdeigsbakstri. „Brjótið“ deigið um það bil 40 sinnum. Þetta er gert til þess að styrkja glútenið og er ein tegund hnoðunar.
  • Leyfið deiginu að hvílast í 20 mín. og gerið aftur eins og áður, brjótið deigið um 40 sinnum. Hvílið þá í 20 mín.

Skref4

  • Takið fram hreina ofnskúffu og dreifið 2-3 msk. af ólífuolíu yfir. Smyrjið með pensli svo öll skúffan sé þakin olíu.
  • Setjið deigið á ofnplötuna og togið það aðeins til. Leyfið því að vera í friði svo í skúffunni í 15 mín.
  • Hellið örlítilli ólífuolíu yfir fingurna og togið deigið út í átt að köntunum svo það þeki plötuna alveg. Dreifið um það bil 2 msk. af ólífuolíu yfir deigið og ýtið niður í það með fingurgómunum svo það myndist holur. Setjið plastfilmu yfir plötuna og hefið í 2 klst.

Skref5

  • Rífið ostinn og slítið rósmarín nálar af greinunum, setjið til hliðar. Magn rósmaríns fer eftir smekk en ég notaði um 1 ½ grein.
  • Hitið ofninn í 220°C blástur.
  • Þegar 2 klst. eru liðnar og deigið orðið vel hefað setjið þá aftur ólífuolíu á fingurna og ýtið niður með fingrunum eins og áður. Setjið rósmarín yfir hefað deigið og stráið sjávarsalti yfir, magn eftir smekk.
  • Setjið ofnplötuna inn í ofninn og bakið í 12-15 mín. Takið þá plötuna út og dreifið ostinum yfir. Haldið áfram að baka í 10 mín í viðbót eða þangað til brauðið er orðið vel gyllt og fallegt.
  • Leyfið mesta hitanum að rjúka úr brauðinu og færið það síðan yfir á grind.
  • Skerið brauðið í ferninga, stærð ferninganna fer eftir því hversu stórar samlokur þið viljið gera.

Samsetning

  • Í hvaða röð áleggið fer á samlokurnar skiptir engu máli fyrir utan að mér finnst best að byrja á því að smyrja brauðið með pestói. Ég set yfirleitt kjöt og osta til skiptis og grænmeti einhvers staðar meðfram. Toppa svo með góðri ólífuolíu, sjávarsalti og rifnum parmesan eða Feyki (sem ég nota oft í staðinn fyrir parmesan í uppskriftir og finnst það ótrúlega gott!).
Samsetning

Höfundur: Valgerður Gréta Gröndal