Þessi réttur hentar ótrúlega vel þegar tíminn er naumur en þig langar til þess að bera fram eitthvað sérstaklega gott. Ert jafnvel með matarboð en tíminn hljóp frá þér og allt í volli. Örvæntið eigi því þennan rétt græja ég að mestu í airfryer en það er auðvitað lítið mál að elda bringurnar í ofni ef þið eigið ekki slíkan grip. Eldunartíminn er hins vegar talsvert styttri ef ég nota airfryer-inn. Rjómaostinn nota ég hvorutveggja í fyllinguna og sósuna og ein dós nýtist að fullu. Ég kann mjög illa við matarsóun og því reyni ég að samnýta hráefni eins og hægt er. Rjómaosturinn er fullkominn í rétti eins og þennan, bragðgóður án þess að vera sterkur. Og allt spilast þetta svo vel saman, safaríkar bringurnar með bragðmikilli fyllingu, lagðar ofan á tagliatelle með dásamlegri rjómasósunni. Þetta verður ekki betra!