Botnar
- Stillið ofninn á 180°c hita og smyrjið tvö hringlaga eldföst mót að innan ca. 22 cm að stærð.
- Blandið sykri, hveiti, kakó, salti, matarsóda og lyftidufti saman í skál og hrærið saman.
- Blandið saman einu og einu eggi saman við, ásamt súrmjólkinni, kaffinu, olíunni og vanilludropunum. Hrærið á meðal hraða þangað til allt hefur blandast vel saman í rúmar 2 mín.
- Skiptið deiginu í tvennt og hellið því í bökunarformin. Bakið í rúmar 30-35 mín, eða þangað til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Takið kökurnar út og kælið alveg. Það er mjög mikilvægt að kökurnar séu vel kaldar þegar kremið er sett á þær svo það haldist vel og bráðni ekki á kökunum.
Smjörkrem
- Hrærið smjörið í hrærivélinni þangað til það er orðið mjúkt og létt.
- Bætið smá og smá af flórsykrinum saman við og hrærið vel á milli.
- Bætið því næst vanilludropunum saman við og mjólkinni. Ef ykkur finnst kremið of þykkt bætið þið við mjólk og ef ykkur finnst það of þunnt bæti þá við flórsykri. Mikilvægt er að hræra kremið mjög vel þegar maður ætlar að skreyta kökur því þá losnum við við alla smjörkekkina og kremið verður með fallega áferð. Því lengur sem þið hrærið því betra verður kremið.
Skreyting
- Leggið botnana á diskinn þannig að botninn standi upp, þannig fáum við kökuna til þess að vera fallega í laginu og efsta lagið verður slétt sem gerir kökuna svo fína.
- Setjið smjörkrem á milli botnanna og setjið svo þunnt lag af kremi yfir kökuna alla, það er gert til þess að festa hana saman og er kallað “crumb coat”.
- Best er svo að setja kökuna inn í ísskáp í rúmar 30 mín.
- Smyrjið svo annarri umferð af smjörkreminu yfir kökuna þangað til kremið hefur hulið kökuna vel. Gott er að slétta úr kreminu með hníf eða litlum spaða.
- Setjið kökuna aftur inn í ísskáp.
- Skiptið einni uppskrift af smjörkremi í fernt og litið það með þeim litum sem þið viljið hafa til þess að skreyta.
- Takið síðan mjög beittan hníf og skerið ísformin í tvennt. Fyrir þessa köku þar sem hún er aðeins tveir botnar varð ég að skera örlítið af endunum af ísformunum svo þau passi á kökuna.
- Setjið lítinn stjörnustút í sprautupoka og setjið gult krem í hann. Sprautið kreminu meðfram kökunni og setjið svo ísformin á kökuna með jöfnu bili milli þeirra allra.
- Til þess að sprauta kremi í ísformin notaði ég sprautustút númer 1M. Sprautið kreminu í hvert ísform fyrir sig, setjið sprinkles ofan á og setjið svo eina tyggjókúlu ofan á hvert þeirra.
- Skreytið kökuna með restina af gula kreminu og setjið sprinkles ofan á kökuna.
- Gott er að kæla kökuna í rúmlega 30 mín. eða þangað til smjörkremið hefur náð að storkna og þá sérstaklega ef það á að ferja kökuna milli húsa.
Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir