Menu
Klúbbsamlokur með beikoni, tómötum og hvítlaukssveppum

Klúbbsamlokur með beikoni, tómötum og hvítlaukssveppum

Á mínu heimili höfum við eitthvað djúsí og gott á föstudögum. Heimagerðan skyndibita á borð við pítsur, hamborgara, pítur og þess háttar mat en það er alls ekki verra ef það þarf ekki að leggja of mikla vinnu í matargerðina. Þessar samlokur passa akkúrat inn í föstudagsþema heimilisins. Ótrúlega bragðgóðar, mátulega djúsí og einfalt og fljótlegt að útbúa þær. Áleggið er að sjálfsögðu ekki há heilagt og um að gera að nýta það sem til er. Mér finnst þó algert lykilatriði að hafa stökkt beikon, bragðgóðan samlokuost og safaríka vel þroskaða tómata.

Innihald

2 skammtar
fínt samlokubrauð
samlokuostur frá MS
beikonsneiðar
sveppir, stórir
íslenskt smjör
vel þroskaðir tómatar
lambhagasalat
reykt silkiskorin kjúklingaskinka
majónes
dijon sinnep
hvítlauksduft, salt og pipar

Skref1

  • Byrjið á því að hita ofninn í 190°C blástur.
  • Setjið bökunarpappír á ofnplötu og raðið beikoninu á pappírinn.
  • Steikið beikonið þar til það er orðið eins og þið viljið hafa það, mér finnst best að hafa það vel stökkt.

Skref2

  • Skerið sveppina í sneiðar og hitið 2 tsk. af smjörinu á pönnu.
  • Þegar smjörið er bráðið og pannan orðin snarpheit þá setjið þið sveppina út á og kryddið með hvítlauksdufti og salti og pipar eftir smekk.
  • Steikið þar til þeir eru orðnir vel brúnaðir, takið þá pönnuna af hellunni og geymið til hliðar.

Skref3

  • Smyrjið brauðsneiðarnar öðru megin með þunnu lagi af restinni af smjörinu.
  • Steikið sneiðarnar með smjörhliðina niður á pönnu eða grillpönnu þar til brauðið er orðin vel gyllt.
  • Skerið tómata í sneiðar.

Samsetning

  • • Smyrjið tvær af brauðsneiðunum með dijon sinnepi á óristuðu hliðinni. Ég sprautaði svo majónesi yfir dijon sinnepið og aðeins á hinar brauðsneiðarnar líka.
  • • Setjið ostsneiðar á hverja sneið svo það verða 2 sneiðar í hvorri samlokunni.
  • • Raðið því næst salatinu, skinkunni, beikoninu, tómötunum og sveppunum á og lokið samlokunni. Mér finnst gott að setja tannstöngla í samlokurnar áður en ég sker þær í tvennt eða fernt.
  • • Það er ljómandi gott að bera þær fram eins og þær eru eða jafnvel með frönskum eða kartöfluflögum.
Samsetning

Höfundur: Valgerður Gréta Gröndal