Lambafillet
- Ef ætlunin er að hafa lambakjöt í kvöldmat er gott að taka það úr ísskápnum að morgni. Snyrta bitana, skera af auka fitu og sinar ef einhverjar eru og skera í fituna tíglamynstur niður að kjötinu. Gætið þess að skera ekki í kjötið sjálft.
- Kjötið er svo kryddað vel með salti og pipar. Sett í fat og ólífuolíu hellt yfir kjötið og því velt vel upp úr olíunni. Svo er fatið sett inn í ísskáp, engin filma yfir og fituhliðin látin snúa upp.
- 1 klst áður en kjötið er eldað er gott að taka það úr ísskápnum og leyfa því að ná stofuhita.
- Hitið ofn í 180 gráður. Bræðið 50 g af smjöri á pönnu við meðalháan hita, setjið timjan greinarnar í smjörið og leyfið þeim að krauma með. Steikið kjötið svo á fituhliðinni í smjörinu í góðar 4 mín. eða þar til puran er gullin og stökk. Snúið þá kjötinu við og stingið inn í ofn í 10-12 mín. Þá ætti steikin að vera fallega bleik í miðjunni. Ef þið viljið gegnsteikja kjötið er vissara að hafa það í 15-17 mín. í ofninum.
- Þegar kjötið er tekið út er smjörinu og fitunni, sem er á pönnunni, ausið yfir kjötið. Leyfið því svo að standa í 10 mín. áður en það er skorið.
- Berið fram með bernaise-sósu og bragðmiklum hasselback-kartöflum með osti og bökuðum rauðlauk.
Bernaise sósa
- Bræðið smjörið með kjötkraftinum.
- Takið af hitanum og leyfið aðeins að rjúka.
- Setjið eggjarauðurnar í hitaþolna skál, stál eða gler.
- Setjið vatn í pott, hleypið upp suðunni og lækkið svo alveg undir.
- Leggið skálina ofan á pottinn, gætið þess að botninn snerti ekki vatnið og þeytið eggjarauðurnar þar til ljósar og léttar. Ég nota lítinn rafmagnshandþeytara.
- Takið pottinn með skálinni af hitanum. Hellið smjörinu mjög rólega saman við eggin í mjórri bunu og þeytið stanslaust á meðan, þetta tekur um 5-7 mínútur.
- Kryddið svo með estragoni og bernaise essence.
- Smakkið til með sítrónu, salti og pipar.
- Sósan geymist vel undir plastfilmu við stofuhita í 2-3 klst, borin fram stofuheit eða hituð rólega upp yfir vatnsbaði.
Hasselback kartöflur
- Skerið þunnar rifur í kartöflunar og gætið þess að skera ekki alla leið í gegn.
- Skerið ostinn í litla bita og stingið 3-4 bitum í hverja kartöflu.
- Leggið kartöflurnar í eldfast mót og setjið laukinn í bátum inn á milli.
- Hellið bræddu smjöri yfir allt saman og kryddið með salti og pipar.
- Bakið við 180 gráður í 40 mínútur eða þar til kartöflurnar eru eldaðar í gegn.
- Stráið steinselju yfir og berið fram.
Höfundur: Helena Gunnarsdóttir