Menu
Nautalund með bernaise sósu og ferskum aspas

Nautalund með bernaise sósu og ferskum aspas

Uppskrift frá lækninum í eldhúsinu sem getur ekki klikkað.

Innihald

1 skammtar

Nautalund:

nautalund, helst miðbitinn
smjör
salt og pipar

Bernaise sósa:

eggjarauður
smjör
ferskt estragon
bernaise bragðbætir, 2-3 msk.

Bernaise bragðbætir:

hvítvínsedik
ferskt estragon, 4-5 greinar
skalottulaukur
létt mulin piparkorn, 10-15 stk.

Aspas:

aspas
salt og pipar

Nautalund

  • Látið kjötið standa við stofuhita í klukkustund áður en það er steikt til að tryggja að það verði mjúkt eftir steikingu.
  • Snyrtið kjötið vandlega og saltið og piprið ríkulega.
  • Bræðið smjör á pönnu og steikið nautið á hverri hlið í um 30 sekúndur. Steikið þangað til að hún hefur tekið á sig fallegan gullinbrúnan lit.
  • Það er gott að ausa bráðnu smjörinu upp á steikina til að bæta bragð hennar ennþá frekar.
  • Þegar lundin er fallega brún á öllum hliðum að utan er kjötið sett í 180 gráðu heitan ofn og bakað þangað til að kjarnhiti nær 50-55 gráðum (eftir smekk). Hvílið í nokkrar mínútur áður en það er skorið.

Bernaise sósa

  • Útbúið bernaise bragðbæti með því að hella hvítvínsedikinu í pott.
  • Skerið skallotulaukinn niður gróflega og setjið með edikinu ásamt fáfnisgrasinu og piparnum.
  • Hitið að suðu og sjóðið niður við lágan hita þangað til að tvær til þrjár matskeiðar af bragðbæti eru eftir.
  • Skírið smjörið með því að bræða smjör í potti og látið krauma í nokkrar sekúndur og takið af hitanum, leyfið mjólkurpróteinunum að sökkva til botns. Hellið smjörfitunni til hliðar (að skíra smjörið tryggir að sósan verði þykk).
  • Þeytið eggjarauðurnar í stutta stund í hitaþolinni skál og blandið svo bragðbætinum við og færið svo eggjablönduna yfir vatnsbað.
  • Þeytið eggin þangað til að þau fara að þykkna (gætið að hitanum, hafið aðra hendina á skálinni til að finna hvaða hiti leikur um eggin, verði þér heitt á hendinni þá eru eggin líka í hættu).
  • Þegar eggin hafa þykknað (og tvöfaldast að rúmmáli) má hella smjörinu saman við í þunnri bunu og samtímis þeyta það svo af krafti saman við.
  • Saxið niður fáfnisgras og setjið út í sósuna.

Aspas

  • Setjið vatn í pott og saltið ríkulega. Hitið að suðu
  • Brjótið neðan af aspasinum. Takið í sitthvorn endann og beygið þangað til að hann gefur sig.
  • Sjóðið í vatninu í tæpar fimm mínútur og leggið svo á disk.
  • Saltið og piprið. Gott er að dreifa smá sítrónusafa og parmaosti yfir.

Höfundur: Ragnar Freyr Ingvarsson