Menu
Smálúða með rjómaosti og steiktum saffran hrísgrjónum

Smálúða með rjómaosti og steiktum saffran hrísgrjónum

Þetta er einkar fljótlegur réttur sem vandræðalaust er hægt að snara fram í miðri viku - já, eða um helgi ef því er að skipta.

Ég notaði rjómaost með karamelliseruðum lauk - þetta er bragðgóður ostur og þarna er sannarlega að finna sæta lauktóna.

Þetta var sérstaklega vel heppnuð máltíð - lúðan kom einstaklega mjúk og safarík undan hjúp af rjómaosti og smjörsteiktum lauk. Sannkölluð veislumáltíð.

Verði ykkur að góðu.

Innihald

5 skammtar

Smálúða með rjómaosti

spriklandi fersk smálúða
hvítur laukur
rauðlaukur
hvítlauksolía
smjör
rjómaostur með karamelliseruðum lauk
ferskt timjan
salt og pipar

Steikt saffran hrísgrjón

basmati hrísgrjón
smjör
saffran
salt og pipar

Smálúða með rjómaosti

  • Skolið af fisknum og leggið í ofnskúffu. Ég lagði fiskinn á bökunarpappír til þess að minnka uppþvott að matseld lokinni.
  • Byrjið á því að pensla fiskinn með hvítlauksolíu og svo ríkulega af rjómaostinum, notaði hálfan pakkann.
  • Sneiðið rauðlauk og gulan lauk.
  • Mýkið laukinn í nokkrar mínútur í smjöri. Gætið þess vandlega að brúna ekki laukinn.
  • Leggið laukinn svo ofan á fiskinn.
  • Sáldrið fersku timjan yfir.
  • Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur.
Smálúða með rjómaosti

Steikt saffran hrísgrjón

  • Vekjið saffranið í heitu vatni í um 30 mínútur.
  • Sjóðið hrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum.
  • Bræðið 50 g af smjöri á pönnu og steikið soðin hrísgrjónin í nokkrar mínútur.
  • Hellið saffraninu ásamt vatninu saman við.
  • Steikið áfram í nokkrar mínútur. Grjónin verða fallega heiðgul.
Steikt saffran hrísgrjón

Höfundur: Ragnar Freyr Ingvarsson