Ég er bókmenntafræðingur og hef bloggað um mat síðan 2011. Ég var þá í fæðingarorlofi með dóttur mína og fannst þetta snilldarhugmynd, að taka myndir af því sem ég var að elda og setja inn uppskriftir með. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á matargerð og bakstri og byrjaði ung að fikta í eldhúsinu. Ætli það sé ekki hægt að segja að ég sé hamfarakokkur? Ég læt mig hafa það að fara eftir uppskriftum í bakstri en það er bara rétt svo og yfirleitt enda ég á því að breyta einhverju.
Það er kannski kaldhæðni fólgin í því að birta uppskriftir og fara aldrei eftir þeim sjálf. Í matargerð fer ég sjaldnast eftir uppskriftum og hef þær kannski meira til hliðsjónar. Ég elska samt að lesa um mat, fletti í gegnum uppskriftabækur og hef sérstakan áhuga á gömlum matreiðslubókum og því eldri því betri. Mér líður best þegar ég er að vinna eitthvað í eldhúsinu með góða hljóðbók í eyrunum. Þannig næ ég að sameina það sem ég hef mesta ástríðu fyrir, bókmenntir og mat.